- English
- Íslenska
Hönnunarverðlaun Íslands

Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast.
Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.
Verðlaunin eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi ný verk; einstakan hlut, verkefni eða safn verka. Hönnuðir þurfa að vera félagar í einu af aðildarfélögum Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs eða fagmenn á sínu sviði til að hljóta verðlaunin. Ný verk eru verk sem lokið hefur verið við á síðustu tveim til þremur árum fyrir afhendingu verðlaunanna.
Hönnunarverðlaun Íslands eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur.
Besta fjárfesting í hönnun er viðurkenning sem veitt er fyrirtækjum sem hafa hönnun og arkitekúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina.
Við val á verðlaunahafa er haft í huga að verið er að leita að framúrskarandi verki, eða safni verka, sem standa á sem fulltrúi þess besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs. Verkið/verkin þurfa að vera einstök, fela í sér frjóa hugsun, snjalla lausn, vandaða útfærslu og fagmennsku í vinnubrögðum.
Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands voru veitt í fyrsta skiptið árið 2019. Heiðursverðlaun er viðurkenning veitt einstaklingi sem þykir hafa skilað framúrskarandi ævistarfi á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi. Fyrsti handhafi heiðursverðlauna var Manfreð Vilhjálmsson, arkitekt.
Hönnunarverðlaun Íslands 2020 fara fram í janúar 2021.
Hér má sjá hverjir skipa dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2020
Handhafar Hönnunarverðlauna Íslands gegnum árin






